40 dagarnir að baki og mér líður stórvel!

Posted on Posted in Fréttir

Hin mjög svo knáa Ragnheiður Gunnarsdóttir var með í síðustu 40 daga áskorun Kettlebells Iceland. Hér er hennar upplifun.

Þá eru 40 dagarnir bara búnir, ótrúlegt en satt og mér líður alveg stórvel!  Ég ætlaði nú fyrst ekki að taka þátt en undir niðri langaði mig nú samt.  Á sunnudeginum áður en við byrjuðum skoraði Gaui á mig og þá var ekki aftur snúið! Ég sé svo aldeilis ekki eftir því.

Það reyndist mér ótrúlega auðvelt að borða bara 3 máltíðir á dag.  Ég seinkaði morgunmatnum til kl.10 og hádegismatnum til kl. 14 og borðaði svo kvöldmatinn milli kl. 18 og 19.  Í morgunmat fékk ég mér oftast chia jógúrt með mangó,  í hádegismat annað hvort gróft brauð með fullt af grænmeti eða grænmetissúpu og gróft brauð/kjúkling/egg (bjó mér til grænmetissúpu á sunnudagsmorgnum og átti í frysti), í kvöldmat fékk ég mér svo oftast kjúkling og grænmeti.

Ég mætti á 3-5 bjölluæfingar hjá kettlebells.is, bæði morgunæfingar og seinnipartsæfingar.  Morgunæfingar henta mér ótrúlega vel!  Þvílík snilld að æfa svo snemma morguns 🙂 og svo góður hópur!  Á milli gerði ég svo liðleikaæfingar heima, rokk, rúll, hlébarða ofl.  Ég labba ansi mikið í vinnunni en fór líka alltaf í 20 mín göngu í hádeginu, ef vantaði upp á skrefin fór ég í kvöldgöngu.  Um helgar reyndi ég að byrja daginn á 5000-7000 skrefa göngutúr með litla gaurinn minn í vagninum.

Á þessum 40 dögum hefur hugafarið mitt breyst ansi mikið. Ég nýt þess miklu betur að borða hverja máltíð í stað þess að fá mér að borða „af því að það er komin matur og ég á að fá mér að borða“.  Varðandi freistingarnar sem eru ansi oft fyrir framan mann þá reyndist mér það frekar auðvelt að standast þær, en ég reyndi t.d að borða fyrir eða eftir samstarfsfélögunum ef einhverja freistingar voru í boði.

Ég ætla klárlega að halda áfram á beinu brautinni, stefni samt á að færa morgunmatinn og hádegismatinn framar og fá mér ávöxt um miðjan dag og svo kvöldmat.  Gönguferðirnar fá klárlega að halda sér, að ganga er ansi vanmetið!  Varðandi desember freistingarnar eins og allt Machintosið og Nóa konfektið sem flæðir um í vinnunni hjá mér í desember ætla ég að „fá mér“ þessa 2-3 mola sem flestir fá sér og safna saman í poka upp í skáp, hvað ég ætla svo að gera við pokann er ég ekki búin að ákveða en hugsanlega skella honum framan í samstarfsfélagana 23/12 og sýna þeim hvað þeir hafa fengið sér í desember.  Varðandi aðrar freistingar ætla ég að leyfa mér að freistast við sérstök tilefni!

Í bónus við andlega og líkamlega vellíðan þá fuku 7 kg og fullt af cm 🙂 Ég náði líka markmiðinu sem ég setti mér að klára fyrir jól en það var 1 dauð upphífing.

Þetta var algjör snilld, get mælt 100% með þessu.

Takk Gaui og Vala fyrir allt 🙂 ég er klárlega búin að finna þá líkamsrækt sem hentar mér, þið eruð frábær!

Ragga

Næsta 40 daga áskorun hefst á mánudaginn, 13. janúar 2014. Nánari upplýsingar