“… örugglega klikkað lið sem myndi öskra á mig og reyna að selja mér próteinduft!”

Posted on Posted in Fréttir

Ég hef í gegnum árin oft og iðulega aldeilis ætlað að taka líkamsræktina með trukki. Keypt aðgang að einhverri stöð og skráð mig á misgáfuleg átaksnámskeið. Aldrei nokkurntíma hef ég haldið það út að mæta, með tímanum lærði ég að sveittar líkamsræktarstöðvar eru bara alls ekki minn tebolli. Einu sinni fór ég á boot-camp námskeið og í fyrsta tímanum kastaði ég upp, þetta var svo erfitt. Þjálfarinn var hinn rólegasti og sagði að þetta kæmi bara „rosalega oft fyrir“. Ég fann að þetta var kannski ekki rétti staðurinn fyrir mig.

Ég viðurkenni að ég var mjög skeptísk þegar ég mætti á fyrstu morgunæfinguna hjá Gauja. Sá fyrir mér að þetta væri nú örugglega eitthvað skrítið, í bílskúr úti í sveit og heimasíðan lúkkaði eins og hjá einhverju mótórhjólagengi (!) Þetta yrði örugglega eitthvað svona klikkað lið sem myndi öskra á mig og reyna að selja mér próteinduft! En það kom nú aldeilis annað á daginn, ekkert nema blíðan og skilningur. Rólegheit, yfirvegun og skynsemi einkennir allt hjá KB Iceland. Ég fann strax að þetta gæti gengið.

Nú fer að verða heilt ár síðan ég mætti á mína fyrstu æfingu, ég hef aldrei haldið neitt svona út nema í mesta lagi 6 vikur. Ég ákvað að setja mér það eina markmið að mæta, sama hvað væri í gangi í lífinu. Gera þetta að rútínu, það var það sem mig langði mest og það hefur tekist. Það hefur tekist því að Gauji og Vala eru algjörlega frábærir þjálfarar og nálgast fólk á þeirra forsendum. Æfingarnar eru krefjandi en um leið ljúfar, andinn í hópnum er frábær og það er passað upp á að gleðin sé í fyrirrúmi.

Það væri of langt mál að telja upp hversu gott þetta hefur gert mér, lífið er bara allt auðveldara og betra þegar manni líður vel.

Ég er ennþá alltaf síðust að klára æfingarnar, man aldrei hvaða æfingar squat-thrust og hvað-þetta-nú-heitir-alltsaman er, ruglast í talningum og geri ennþá armbeyjur á hnjánum, hrein upphífing er fjarlægur draumur, en það er bara í fínasta lagi, ég verð sterkari með hverri æfingu. Hægt og rólega koma allskonar vöðvar í ljós og kílóunum fækkar. Hægt og rólega eru lykilorðin.

Morgunæfingarnar með Gauja og morgungenginu er minn tími, mér finnst alveg vonlaust að missa af þeim. Ekkert er betra en að byrja daginn úti í góða veðrinu (það er nefnilega svo undarlegt að það er alltaf gott veður) og keyra sig í gang. Ég get ekki mælt nógu mikið með KB Iceland. Þar fann ég loksins mína hreyfingu, ég þurfti ekki lengur að pína mig á æfingu heldur „langaði“ mig, það var alveg ný og frábær tilfinning.

Kristín Dröfn Einarsdóttir