“Besta æfingaform í heimi?”

Posted on Posted in Fréttir

Ég velti þessari spurningu upp þar sem mér líður svo frábærlega vel eftir að hafa tekið þá góðu ákvörðun að byrja að æfa hjá Kettlebells Iceland. Ég hef sjaldan verið í betra formi bæði líkamlega og andlega. Ég held reyndar að það sé ákaflega persónubundið hvað hentar hverjum og hef ég prófað nánast allar gerðir af hreyfingu og það eina sem ég gat dvalið lengur við en 1-2 mánuði var judo og spinning, hitt var einfaldlega drepleiðinlegt til lengdar. Gallinn við spinning er að það er ákaflega einhæft og eftir ákveðinn tíma þá venst líkaminn þeirri hreyfingu og þetta verðu auðveldara og auðveldara í hvert skipti.

Ég get þakkað konunni minn henni Siggu fyrir að draga mig í þetta, þó það hafi ekki verið þakkir í hennar garð sem kom upp í huga mér þegar mínum fyrsta tíma var lokið. Minn fyrsti tími var svokölluð spilaæfing og Sigga var súper glöð með það.  Spilaæfingin snýst um það að spilastokkur er lagður á gólfið og hver og einn dregur spil úr honum og gerðar eru ákveðnar æfingar með mismörgum endurtekningum eftir því hvaða spil er dregið. Það fyrsta sem ég tók eftir var að allir sem voru mættir á æfinguna voru svo glaðir og létt var yfir hópnum.

Ég tók þar eftir tveimur hraustlegum skeggjuðum mönum sem brostu vinalega til mín og náðu sér í bjöllur í rekkann fyrir æfinguna og þar sem ég var nú svipaður í hæð og holdum og annar þerra (kallaður Hressi) þá tók ég samskonar bjöllu og límdi mig á hann til þess að gera nú æfingarnar rétt. Það var rétt ákvörðun uppá að læra réttar hreyfingarnar en kolröng ákvörðun að hafa tekið samskonar þyngd af bjöllu…… ég sá það fljótlega að ég var búinn að koma mér í vandræði – þegar 4 af 52 spilum í stokknum voru búinn  var ég gjörsamlega að springa af mæði og þreytu en þungarokkið var hressandi og  ég lufsaðist í gegnum þetta á þrjóskunni einni saman. Áður en ég vissi var æfingin búin. Þegar Sigga spurði  mig í bílnum á leiðinn heim eftir æfingu hvort mér hafi ekki fundist gaman þá var það nú ekki það sem mér kom í hug og gat ég eiginlega ekki talað vegna þreytu. Í raun rétt meikaði ég það í sturtuna og þurfti svo að leggjast uppí rúm(næstum með þumalinn í munninum) til að jafna mig :).

Það sem tók við voru þær rosalegustu harðsperrur sem ég hef fengið í langana tíma og á ótrúlegustu stöðum. En þetta jafnaði sig nú allt samann og mér fannst alltaf meira gaman eftir hvern tíma og það besta var að allir eru þarna að æfa á sínum forsendum. Vala og Gaui passa ótrúlega vel uppá að æfingarnar séu gerðar rétt og það er alltaf verið að ýta manni út fyrir þæginda rammann.

Fjölbreyttari og skemmtilegri æfingar hef ég aldrei prófað. Þetta minnir helst á þá sælu tilfinningu sem maður upplifði í skemmtilegum leik þegar maður var barn. Það er líka risa bónus  að langvinnur bakverkur eftir óhóflega kyrrsetu er horfin og mér hefur sjaldan liðið betur og ég hlakka alltaf til næsta tíma nánast strax og ég hef lokið við æfinguna og get ekki hugsað mér að missa af næsta tíma,  enda skemmtilegri æfingarfélagar vandfundnir :). Ég segi það fullum fetum að fyrir mig eru Ketilbjöllur eins og Vala og Gaui setja þetta saman besta æfingarform í heimi.”

Kveðja, Sverrir Hermann